top of page
Slagregnspróf á ísetningu glugga

Hvað er tveggja þrepa þétting?

Það er til mikils að vinna ef hægt er að tryggja að gluggar og hurðir haldi vatni og vindi í stormasamri íslenskri veðráttu.

 

Samkvæmt byggingarreglugerð þá skal eigandi mannvirkis geta sýnt fram á að gluggar í nýbyggingum séu slagregnsprófaðir samkvæmt staðlinum ÍST EN 1027 og standist prófunarálag sem er að lámarki 1100 PA.

Það er hægt að sýna fram á að gluggar standist þessa kröfu með því að koma glugga fyrir í tilraunarklefa á rannsóknarstofu  þar sem framkallaður er 1100 Pa undirþrýsting innan við gluggann.

 

Að því loknu er tilteknu magni af vatnsúða beint  á gluggann sem á að leiða í ljós ef líkur séu á að glugginn leki í þeim úrkomusömu og vindamiklu slagveðrum sem eru fylgifiskar djúpra lægða sem reglulega leggja leið sína yfir landið.

En það er ekki nóg að glugginn einn og sér haldi vatni og vindi við tilbúnar aðstæður á tilraunastofu.

Aðferðin, efnin og handbragðið við ísetninguna þarf að standast sambærilega áraun aftur og aftur eftir að glugganum eða hurðinni hefur verið komið fyrir í viðkomandi byggingu þegar veður eru válynd.

Það er því jafn mikilvægt og að gluggin hafi verið prófaður og fá þannig tryggingu fyrir því að ísetningin standist sama veðursfarslega álag og glugginn sjálfur og að það sé staðfest áður en gengið er endanlega frá áfellum og klæðningum, bæði að utan og innan.

 

Það er oftast nægjanlegt að gera slagregnspróf á einum glugga í hverri byggingu.

Ef hann stenst prófunarálagið er nóg að skoða hvort handbragð og frágangur á öðrum gluggum og hurðum sé með sambærilegu hætti og gluggans sem er prófaður.

Sjálft prófið tekur aðeins nokkrar mínútur eftir að búið er að loka og þétta með  glugganum að innanverðu með krossviði eða öðrum sambærilegum hætti.

Prófið fer þannig fram að það eru framkallaðar 1100 Pa þrýstingsmunur  innan og utan við gluggan á sama tíma og ákveðnu magni af vatni er úðað á gluggann að utanverðu.

Eftir 15 mínútna prófun er lokunin að innaverðu fjarlægð og skoðað hvort vatn hafi komist inn fyrir innri þéttinguna. 

Ef allt er þurrt og gott þarf að tryggja að aðrir gluggar í byggingunni verði settir í með sömu aðferð, sömu efnum og með sömu faglegu natni og beitt var við ísetninguna á glugganum sem stóðst prófunarálagið.

Ef hinsvegar kemur í ljós að þéttingin hefur brugðist þarf að endurmeta aðferð, efnisnotkun og handbragð við ísetningu og frágang á þéttingum. 

Aðstoð býr yfir þekkingu og reynslu við að framkvæma slagregnsprófanir og skilar greinagóðri skýrslu að prófi loknu.

bottom of page